Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 26


Fræslægja  -  áhugaverð leið til að endurheimta innlendan gróðurJárngerður Grétarsdóttir (jarngerdur@lbhi.is)

Landbúnaðarháskóli Íslands

Á árunum 2007-2009 voru gerðar tilraunir með söfnun og dreifingu fræslægju til að græða upp raskað land á Hellisheiði.  Fræslægja (ferskt fræhey , e. fresh seed-containing hay) er nýsleginn gróður eftir að fræþroska er náð.  Uppgræðsluaðferðin byggist á því að slá gjafasvæði að hausti og dreifa fræslægjunni strax (án þurrkunar eða annarrar meðhöndlunar) á raskað viðtökusvæði.  Í slægjunni eru dreifingareiningar plantna s.s. fræ, æxlikorn, blaðgróin smáöx, mosa- og fléttubrot auk heymassans.  Með tímanum hrynja dreifingareiningarnar úr slægjunni en heymassinn leggur til lífrænt efni, skjól og raka og bætir þannig aðstæður til fræspírunar og landnáms.  Aðferðin hefur verið notuð erlendis með góðum árangri við endurheimt náttúrulegra gróðurlenda um nokkurt skeið (s.s. Kiehl o.fl. 2010).

Tilraunin á Hellisheiði sýndi góðan árangur af notkun fræslægju úr mosaríku graslendi þar sem landnám staðargróðurs jókst til muna, t.d. var háplöntuþekja rúmlega þrefalt meiri í viðtökureitum slægju (53 ± 6,1%) en í viðmiðunarreitum (15 ± 6,3%) tveimur árum eftir dreifingu slægju sem safnað var í lok ágúst 2007.  Einnig jókst mosaþekja mikið í viðtökureitum eða allt að tífalt.  Helstu plöntutegundir sem námu land voru blávingull, vallhæra, kornsúra, vegarfi, ljónslappi, hvítmaðra, tildurmosi, engjaskraut, melagambri og móasigð.  Árangur af slægjudreifingu úr lyngmóa á Hellisheiði var aftur á móti mun síðri.  Gjafareitir í graslendi voru fljótari að jafna sig en í lyngmóa.