Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 44


Fjöruþörungar í Surtsey



Karl Gunnarsson og Svanhildur Egilsdóttir

Hafrannsóknastofnun, Reykjavík

Kynnir/Tengiliður: Karl Gunnarsson (karl@hafro.is)

Fylgst hefur verið með „landnámi“ fjöruþörunga í Surtsey frá því að eyjan myndaðist í nóvember 1963. Niðurstöður rannsókna á fjöruþörungum sem gerðar voru í Surtsey 2009 eru sýndar. Greina má tvö gróðurbelti í fjörunni. Efra beltið er vaxið grænþörungum einkum tegundum af ættkvíslunum Ulothrix, Blidingia, Enteromorpha og Urospora. Í neðra beltinu eru brúnþörungar mest áberandi aðallega tegundirnar Ectocarpus fasciculatus, Petalonia fascia og Alaria esculenta ásamt kísliþörungum. Áberandi er að í fjörunni eru einkum einærar, tækifærissinnaðair þörungar ríkjandi. Fjaran í Surtsey er sérlega óstöðug. Hraunið sem þekur suðurhluta eyjunnar brotnar sífellt niður vegna mikillar brimasemi og eyjan minnkar smám saman. Meira en 25 m ölduhæð hefur mælst við Surtsey. Ætla má að sandur og möl sem myndast við niðurbrot fjörunnar berist um í öldurótinu og skúri lífverur af steinum þegar stormar geisa, einkum á vetrum. Það kemur í veg fyrir að fjölærir þörungar nái fótfestu í fjörunni í Surtsey.