Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 37


Kregða. Ræktun og stofnagreining á Mycoplasma ovipneumoniae með RAPD og raðgreiningu 16S RNA.



Sigríður Hjartardóttir, Þorbjörg Einarsdóttir, Ólöf Sigurðardóttir og Eggert Gunnarsson

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Kynnir: Sigríður Hjartardóttir
Tengiliður: Eggert Gunnarsson (eggun@hi.is)

Mycoplasma ovipneumniae ásamt Pasteurella eru aðal orsök lungnasýkinga í sauðfé á Íslandi.

Mycoplasma er baktería án frumuveggjar og með minnstu bakteríum sem þekkjast. Hún þarf sérhæft æti til vaxtar og vex þar að auki mjög hægt. Bakterían er tegundasértæk.

Mycoplasma fjölgar sér í slímhúð lungna, bifhárin verða veikluð og því hósta veik dýr til að losa sig við slím. Blönduð sýking Mycoplasma og Pasteurella getur valdið alvarlegum lungnasýkingum og leitt til dauða.

Tilgangur verkefnisins var að rækta M. ovipneumniae og gera samanburð á stofnunum með RAPD (Random Amplified Polymorphic DNA) aðferð og hlutaraðgreiningu á 16S RNA geni bakteríunnar.

Fengnir voru lungnavefjabútar úr 7 dýrum með einkenni kregðu frá mismunandi stöðum á landinu. Dýrin höfðu verið krufin á Keldum. Vefirnir voru smurðir á fast æti og síðan lagðir í fljótandi æti.

Eftir 6 vikna ræktun mátti merkja örsmáar þyrpingar á agar og grugg í ætinu. DNA var fellt út úr ætinu og magnað upp 16S RNA svæði sem einkennir M. ovipleumoniae og það síðan klónað og raðgreint. Einnig var gert fingrafara próf, RAPD, á erfðaefninu.

Niðurstöður benda til þess að talsverður breytileiki sé í stofnum M. ovipneumoniae á Íslandi og er það í samræmi við það sem sést hefur erlendis.

Sett hefur verði á laggirnar vinnuhópur á Keldum sem hefur það að markmiði af rannsaka orsök lungnasýkinga af völdum baktería í íslensku sauðfé. Markmiðið er að þróa bóluefni sem gagnast við sjúkdómnum.