Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 45Rannsóknir á þróun lífríkis eldfjallaeyja í heiminum: Yfirlit fyrir málstofuna Lífríki SurtseyjarBjarni Diðrik Sigurðsson (1), Borgþór Magnússon (2) og Karl Gunnarsson (3)

1) Landbúnaðarháskóli Íslands
2) Náttúrufræðistofnun Íslands
3) Hafrannsóknastofnunin

Kynnir/Tengiliður: Bjarni Diðrik Sigurðsson (bjarni@lbhi.is)

Dagana 12-14 ágúst 2013 stóð Surtseyjarfélagið ásamt ýmsum innlendum rannsóknastofnunum og háskólum fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á Hótel Hilton Nordica í Reykjavík sem bar yfirskriftina „Surtsey 50th Anniversary Conference - Geological and Biological Development of Volcanic Islands“. Tilefnið var að á þessu ári, eða þann 14. nóvember n.k., verða einmitt 50 ár frá því að Surtseyjargosið hófst. Gosið stóð með hléum í fimm ár, en áður en því lauk hafði eyjan verið friðuð sem einstakur vettvangur vísindarannsókna sem hafa staðið æ síðan. Á ráðstefnunni í ágúst hittust um 80 vísindamenn víðsvegar að úr heiminum, sem allir áttu það sameiginlegt að hafa rannsakað jarðfræði og líffræði ungra eldfjallaeyja, svo sem Anak Krakatau í Indónesíu, Kasatochi í Alaska og Rangitoto á Nýja-Sjálandi. Í þessu erindi verður gefið stutt yfirlit sem byggir á þeim erlendu erindum sem haldin voru á ráðstefnunni í ágúst og fjölluðu um þróun lífríkis á öðrum eldfjallaeyjum en Surtsey, en jafnframt verður reynt að setja slíkar rannsóknir í víðara fræðilegt samhengi.