Um úttekt á íslenska Vísinda- og nýsköpunarkerfinu

Umræðufundur Vísindafélags Íslendinga um úttekt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á íslenska Vísinda- og nýsköpunarkerfinu

Dagsetning: Föstudagur 26. Sept. kl. 12:10 – 13:00
Staðsetning: Fyrirlestrarsalur Þjóðminjasafns Íslands

Frummælendur:
Dr. Erna Magnúsdóttir, rannsóknasérfræðingur
Dr. Kristján Leósson, framkvæmdastjóri

Fundarstjóri: Þórarinn Guðjónsson, prófessor

Ágrip
Þann 29. ágúst var kynnt á Rannsóknaþingi Vísinda- og tækniráðs ný úttekt á íslensku vísinda og nýsköpunarumhverfi sem gerð var af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að beiðni íslenskra stjórnvalda. Skýrslan sem ber heitið “Peer review of the Icelandic Research and Innovation System: Time to take responsibility and act!” er mjög opinská um aðstæður í íslensku vísinda og nýsköpunaruhverfi. Þar vegur einna þyngst gagnrýni á íslensk stjórnvöld fyrir langvarandi aðgerðarleysi í málefnum vísinda og nýsköpunar þar sem kallað er eftir pólitískri ábyrgð og aðgerðum á þeirri stefnumörkunarvinnu sem unnin er á vegum Vísinda – og tækniráðs. Skýrslan bendir á marga veika punkta í íslenska kerfinu, þar sem meðal annars er bent á að samkeppnissjóðir séu of veikir, of lágt hlutfall af heildarfjármagni sem rennur hér til vísinda og að styrkupphæðir úr þeim séu of lágar. Jafnframt er stofnanakerfið gagnrýnt, hvatt til sameiningar stofnana og einföldunar á kerfinu til þess að gera samvinnu auðveldari. Að lokum er lögð áhersla á það að mæla þurfi skilvirkni og framleiðni í kerfinu og staðreyna sífellt árangur af stefnumótunarvinnu. Höfundar skýrslunnar setja jafnframt fram tillögur til úrbóta ásamt forgangsröðun á tillögum þeirra. Við munum fara yfir helstu atriði skýrslunnar, sem enn hefur ekki komið út opinberlega, og að lokum verða umræður um skýrsluna.