Doktorsvörn: Íslenska hagamúsin Apodemus sylvaticus

 

 
Leiðbeinendur
Dr. Páll Hersteinsson (1951-2011), dýravistfræðingur , prófessor í spendýravistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur,  forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. 
 
Doktorsnefnd
Dr. Páll Hersteinsson (1951-2011), dýravistfræðingur , prófessor í spendýravistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur,  forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. 
Dr. Arnþór Garðarsson, dýrafræðingur, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Rolf A. Ims, dýravistfræðingur, prófessor í vistfræði norrænna svæða við Háskóla heimskautafræða í Tromsö í Noregi.
 
Andmælendur
Dr. Ian Montgomery, prófessor í dýravistfræði  við Queen´s Háskólann í Belfast, N-Írlandi.
Dr. Frauke Ecke, vistfræðingur og vísindamaður við sænska Landbúnaðarháskólann í Uppsölum, Svíþjóð.
Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent og starfandi deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar stjórnar athöfninni.
 
Ágrip
Hagamúsin er kjörin til rannsókna á takmarkandi þáttum og stofnvistfræði á nyrstu mörkum útbreiðslu. Hagamúsin barst til Íslands með fyrstu mönnum á eða fyrir 10. öld en landið liggur norðar en náttúrleg mörk tegundarinnar og engin önnur nagdýr eru jafn útbreidd í villtri náttúru landsins.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvaða þættir hafa áhrif á stofnvistfræði íslensku hagamúsarinnar. Í þeim tilgangi voru mýs veiddar, merktar og endurveiddar í reglubundnum veiðilotum á tveimur ólíkum búsvæðum: túnum á Kjalarnesi og blönduðu skóglendi að Mógilsá, bæði á suðvesturlandi.
Rannsókn þessi leiddi í ljós sterkar vísbendingar um að hagamúsastofninn á Kjalarnesi takmarkaðist óháð þéttleika. Í skóglendinu að Mógilsá voru hins vegar þéttleikaháðir þættir líklegri til að ráða stofnstærð hagamúsa eins og þekkt er á svæðum nær miðju útbreiðslusvæðis tegundarinnar í Evrópu. Samanburður þessara tveggja búsvæða sýnir að skóglendið er langtum hagstæðara fyrir hagamýs en túnin á Kjalarnesi. Í skóginum er þéttleikinn mun meiri, lífslíkur eru óháðari veðri og stöðugri, líkamsþyngd er meiri og fæða hugsanlega betri. Allt eru þetta þættir sem skipta máli fyrir afkomu músanna. Á vorin og fyrri hluta sumars reyndist afar erfitt að veiða nógu margar mýs til að geta metið stofnstærð og fyrir aðra tölfræðilega úrvinnslu. Um haustið veiddist hins vegar vel af músum á öllum aldri og hægt var að greina gögnin og gera ýmsa útreikninga eftir aldri og búsvæðum músanna. Þar sem stofnmatið er byggt á veiðigögnum sem svo erfitt reynist að ná þegar stofninn er lítill að vori var þróuð ný aðferð til að leysa vandann. Með þessari leið tókst að sýna fram á stofnvöxt um 100 dögum fyrr en hægt var með hefðbundnum stofnvistfræðilegum aðferðum. Þessi rannsókn hefur sýnt fram á að hægt er að nota gögn úr lífgildruveiðum frá tímabilum þegar vel veiðist til að meta stofna smárra nagdýra á tímabilum þegar lítið veiðist.
Niðurstöðurnar koma að gagni við stofnmat og eru ekki síður áhugaverðar í ljósi verndunarsjónarmiða og þegar unnið er með fágætar tegundir. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru mikilvægt innlegg hvað varðar þekkingu á vistfræði náttúru og dýralífs á norðlægum slóðum.
 
Hvenær hefst þessi viðburður: 
19. maí 2014 – 10:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Hátíðarsalur